Hafa samband

Fyrir nánari upplýsingar um golfferðir Golfskálans er hægt að hringja í síma 578-0120 eða senda tölvupóst á travel@golfskalinn.is

Bókanir

Allar uppsettar ferðir er hægt að bóka í bókunarvél á vefsíðu Golfskálans. Ef uppsettar ferðir henta ekki, (dagsetningar eða lengd ferða), þá reynum við alltaf að sérsníða ferðir að óskum farþega.

Tryggingar

Farþegar eru hvattir til að kaupa sér ferða-, slysa/sjúkra-, farangurs- og forfallatryggingu sérstaklega fyrir ferð. Ferðaskrifstofan selur ekki slíkar tryggingar og eru farþegar hvattir til þess að leita með slíkt til tryggingarfélaga sem og að kanna hvaða tryggingar eru innifaldar í greiðslukortum sem farþegi hefur til umráða.

Evrópska sjúkratryggingakortið

Kortið eiga allir að hafa með sér sem ferðast erlendis. Það einfaldar alla ferla til muna ef leita þarf á sjúkrahús. Hægt er að sækja um kortið hjá Sjúkratryggingum Íslands, ( sjukra.is ).

Þyngd farangurs

Flutningur fyrir golfsett er innifalinn í verðum í skipulögðum hópferðum nema annað sé tekið fram. Leyfileg þyngd farangurs er misjöfn eftir því hvaða flugfélagi er verið að fljúga með. Hámarksþyngd ferðatösku og golfsetts er þó aldrei minni en 15 kg. á hvort eða samtals 30 kg.

Ef farangur skemmist

Ef farangur verður fyrir tjóni í fluginu þá ber að tilkynna það beint til flugfélagsins, Golfskálinn tekur ekki ábyrgð á slíkum tjónum.

Vegna flugs með Icelandair – Týndur og skemmdur farangur | Icelandair

Vegna flugs með Play – Farangurinn minn skemmdist eða honum seinkaði, hvað geri ég nú? | PLAY (flyplay.com)

Ástand golfvalla

Golfskálinn tekur ekki ábyrgð á ástandi golfvalla vegna framkvæmda, veðurfars eða óviðráðanlegra aðstæðna. Við höfum að leiðarljósi að vera ekki með ferðir á sama tíma og vellirnir eru með venjubundið viðhald s.s. götun flata.

Leikhraði og umgengni

Reglan varðandi leik á almennum golfvöllum er að leikmenn hafi gilda leikforgjöf og virði reglur um leikhraða. Flestir golfvellir hafa eftirlit með umgengni og leikhraða og ber kylfingum að fara að tilmælum ef gerðar eru athugasemdir. Í okkar tilfelli eru oft gerðar undanþágur varðandi forgjöfina þar sem við erum gjarnan með stóra hópa undir eftirliti fararstjóra, en leikhraða þurfa allir að virða. En hafa skal þó í huga að þeir sem eru algerir byrjendur og hafa lítið sem ekkert komið nálægt golfíþróttinni, eiga ekki erindi að spila á þessum völlum. Þess vegna áskilja Golfskálinn, golffararstjórar Golfskálans og golfklúbbarnir erlendis sér rétt til að neita farþegum um aðgang að golfvellinum ef reglur um umgengni og/eða leikhraða eru ekki uppfylltar.

Rástímar

Við frátekt á rástímum er haft að leiðarljósi að hægt sé að leika meira en 18 holur á dag. Þannig að algengt eru fyrstu rástímar hvers dags um kl. 08.30 en það er þó ekki án undantekninga. Þegar um hópabókanir, eins og okkar, er að ræða þá áskilja golfvellirnir sér rétt til að breyta rástíma frátekt með littlum fyrirvara og ber því ferðaskrifstofan enga ábyrgð á því. Rétt er þó að taka fram að það er ákaflega ólíklegt að það gerist. Fararstjóri sér um að raða í ráshópa og því nauðsynlegt að láta fararstjóra vita í tíma ef það eru sérstakar óskir varðandi meðspilara.

Ótakmarkað golf

Golfskálinn reynir alltaf að semja um ótakmarkað golf fyrir sína farþega. Almenna reglan varðandi ótakmarkað golf er yfirleitt sú sama. Að fyrri hring loknum má leika meira golf, farþega að kostnaðarlausu, ef það er laus rástími. Frá þessari reglu geta verið frávik s.s. að greiða þarf fyrir leigu á golfbíl eða kerru.

Golf á öðrum völlum, bókanir og kostnaður.

Golfskálinn leitast við að vera með samninga við nálæga golfvelli um sérkjör fyrir sína farþega og aðstoðar fararstjóri við pöntun á rástímum á þeim völlum.  ATH að það þarf að biðja fararstjóra með minnst 3 daga fyrirvara að kanna með rástíma svo sérkjör séu í boði. Dæmi um verð þegar það er skipt út golfi á Bonalba, Alenda 30 evrur á mann, Font del Llop 35 evrur á mann. Innifalið er 18 holu golf með golfbíl. Akstur á milli er á kostnað farþega. Alenda 30 mín, 40 evrur. Font del Llop 35 mín, 45 evrur. Hvora leið með leigubíl. Það komast 4 farþegar með golfsett í hvern leigubíl. ATH verð geta breyst og þessi verð því birt með fyrirvara.

Golfkennsla

Golfskólaferðir eru í boði bæði vor og haust. Ef það er áhugi á einkakennslu þá er það í boði ýmist hjá fararstjóra eða kennurum viðkomandi golfvallar. Fararstjóri aðstoðar í þessum efnum og eins er gott að kanna með þetta tímalega fyrir brottför með því að senda fyrirspurn á travel@golfskalinn.is

Æfingasvæði

Það er aðeins misjafnar aðstæður sem áfangastaðir okkar bjóða til æfinga en við leitumst alltaf við að velja áfangastaði sem hafa góða æfingaaðstöðu.

Golfklæðnaður

Almennt er gerð krafa um klæðaburð, t.d. er bannað er að leika golf í gallabuxum, íþróttabuxum, stuttbuxum með teygju í mittið og stuttermabolum án kraga. Flestir vellir gera kröfu um að kylfingar séu í golfskóm á golfvöllunum en það er ekki sama krafa þegar fólk er á æfingasvæðinu.

Golfvörur

Flestir golfvellir hafa golfverslanir en þó mjög misgóðar. Reynslan er að verðlag hér heima er síst hærra en í þessum “pro shops” á golfvöllunum og því ráðleggjum við farþegum ekki að taka áhættu með að stóla á að fá keypt eitthvað sem nauðsynlega vantar.

Gjafakort

Margir kylfingar fá í hendur gjafakort frá Golfskálanum, annað hvort sem tækifærisgjöf eða vegna þess að þeir standa sig vel í golfmótum. Við viljum benda sérstaklega á þann möguleika að kylfingar sem eiga gjafakort frá Golfskálanum geta bæði nýtt þau í okkar verslun og einnig til kaupa á golfferð. Við setjum engin takmörk á hversu mörg gjafakort er hægt að nýta við kaup á hverri golfferð.